iPad fær blendnar viðtökur

Ég fylgdist spenntur með ítarlegum fréttaflutningi netverja af kynningu Steve Jobs á iPad, nýjustu töfragræju Apple, s.l. miðvikudag. Líkt og margir aðrir hafði ég ákveðnar væntingar til tækisins enda ófáar sögur gengið af útliti þess og eiginleikum.

Eins og gengur reyndust sögusagnirnar misáreiðanlegar og vafalítið með öllu ómögulegt fyrir Jobs og félaga að standa undir öllu umtalinu. Hins vegar tókst Jobs að koma flestum vel á óvart á kynningunni og ekki endilega á þann hátt sem hann hefði helst óskað.

Almennar upplýsingar

iPad lítur út eins og ofvaxinn iPod Touch eða iPhone líkt og kom það lítið á óvart. Tækið vegur ekki nema 0.68 kg (þ.e. Wi-Fi útgáfan) er rétt tæplega 24,3 cm á hæðina og tæplega 19 cm á breidd. Hann fer því vel í hendi. Skjárinn er 9.7 tommur sem er öllu stærri en á Kindle og Nook sem skarta 7 tommu skjá. Upplausnin er 1024×768 pixlar. Að sögn á rafhlaðan að endast í 10 klukkutíma þegar vafrað er um Netið, hlustað á tónlist eða horft á myndir.

dimensions_20100127

iPad keyrir sérstaka útgáfu af iPhone stýrikerfinu og mun koma í nokkrum útgáfum. Í fyrsta lagi eru þrjár útgáfur með misstóru minni, þ.e. 16GB, 32GB og 64GB. Í öðru lagi verður hægt að fá iPad með einungis Wi-Fi stuðningi eða Wi-Fi og 3G. Tækið verður fáanlegt í verslunum eftir c.a. tvo mánuði. Á vef Apple má finna nákvæmari tæknilýsingu á iPad.

Góðu fréttirnar

iPad er glæsileg græja sem mun örugglega hafa einhver áhrif á tölvunotkun. Notendaviðmótið er frábært að sögn og tækið hraðvirkt með afbrigðum. iPad er fyrst og fremst tæki til að neyta stafræns efnis, s.s. dagblaða, bóka, tónlistar og kvikmynda. Eins og Steve Jobs sagði sjálfur á kynningunni þá má staðsegja það á milli snjallsíma og fartölvu. iPad kemur því hvorki í staðinn fyrir síma eða tölvu heldur er hér komin enn ein græjan á heimilið. ipad gerir fátt sem snjallsímar eða fartölvur gera ekki í dag, en hann hefur engu að síður sérstaka eiginleika. Fæstir kunna t.a.m. við að lesa langan texta á tölvuskjá (eða í síma) en líkt og Kindle frá Amazon þá er iPad úrvals bókalesari. Apple ætlar sér enda að setja á laggirnar eigin netbókaverslun sem fengið hefur nafnið iBooks og smakvæmt allavega einni heimild munu bækurnar þar styðja við ePub sniðið sem er opið en býður upp á DRM virkni.

Leikir eru annar vettvangur þar sem iPad mun vafalítið njóta sín. Leikjaframleiðendur hugsa sér örugglega gott til glóðarinnar og ég get vel ímyndað mér að framsæknir íslenskir leikjahönnuðir sjái fjölmörg tækifæri með tilkomu iPad. iPad mun keyra flest forritin sem nú þegar eru til sölu á iTunes fyrir iPod Touch og iPhone en auk þess verður hægt að hanna forrit sérstaklega fyrir iPad. Við munum örugglega sjá mikla grósku á því sviði um leið og iPad verður aðgengilegur í verslunum.

Nokkuð hefur verið fjallað um kosti iPad í námi og kennslu. Persónulega held ég að tækið muni ekki valda mikilli byltingu þar svona fyrst í stað. Vissulega eru stafrænir bókalesarar spennandi verkfæri í námi en þeir eru til nú þegar og öllu ódýrari en iPad. Mín skoðun er því sú að hvað nám og kennslu varðar þá mun iPad ekki valda miklum straumhvörfum eitt og sér heldur öðru fremur styðja við þá þróun sem þegar er í gangi. Það er hinsvegar ansi spennandi tilhugsun.

Slæmu fréttirnar

Það var vitað mál að iPad myndi aldrei standa undir öllum þeim ótrúlegu væntingum sem til hans voru gerðar. Hins vegar kom töluvert á óvart hversu takmarkað tækið er í raun. Hér er stuttur listi yfir það sem fólk hefur helst sett út á:

 • Engin myndavél
  Almennt var gert ráð fyrir að iPad myndi innihalda myndavél og því kom það verulega á óvart þegar í ljós kom að svo var ekki. Ég er sammála þeim sem telja að myndavél hefði verið heppileg viðbót við iPad t.d. fyrir netfundi (skype) og ég efast ekki um í náinni framtíð verði framleiddur iPad með myndavél.
 • Ekki GPS
  Staðsetningartæki hefði verið magnað og komið að góðum notum í tengslum við alla kortamöguleikana sem aðgengilegir eru á netinu í dag. Ég get samt vel skilið að það hafi mætt afgangi þar sem það hefði væntanlega kostað sitt. Þess má geta að GPS virkni er möguleg með 3G útgáfu tækisins þó ekki eins góð og þegar um raunverulegt GPS er að ræða.
 • Ekki „multitasking“
  iPhone snjallsíminn hefur m.a. verið gagnrýndur fyrir að búa ekki yfir „multitasking“, þ.e. að geta ekki keyrt forrit í bakgrunni samhliða annarri vinnslu. Ég á erfitt með að trúa því að iPad muni ekki á einhverjum tíma öðlast þennan eiginleika.
 • Ekki flash
  iPhone hefur einnig verið gagnrýndur fyrir að styðja ekki við flash. Sjálfur var ég nokkuð viss um að iPad myndi styðja við flash og kom því þessi takmörkun frekar á óvart. Líklegast sjá þeir sem öllu ráða hjá Apple flash staðalinn sem hættulegan keppinaut og vilja því helst ekki styðja við hann.
 • Ekki USB tengi
  Þetta kemur verulega á óvart og takmarkar að mínu viti mjög tengimöguleika iPad. Er mér þá alveg sama hvort Apple eða einhver annar vélbúnaðarframleiðandi setji á markaðinn aukabúnað sem bætir úr þessu.
 • Ekki sjónvarpstengi
  Úr þessu verður væntanlega bætt við aukatæki, einhverskonar vöggu líklegast, en persónulega hefði ég veðjað á einhverskonar sjónvarpstengingu.
 • Ekki SD kort
  Fyrstu útgáfurnar af iPad eru mjög takmarkaðar hvað minni varðar og því kemur verulega á óvart að Apple skuli ekki hafa séð þörf fyrir SD kortalesara. Þetta gæti orðið sóknarfæri fyrir aðra sem hyggja róa á sömu mið og þeir eru fjölmargir sem nú þegar eru með svipaðar græjur á teikniborðinu.

Ef ég á að vera fullkomlega hreinskilinn þá er ég mun spenntari fyrir iPad heldur en bæði Kindle eða Nook. Ég er samt vonsvikinn yfir öllu því sem mér finnst vanta uppá tækið og auk þess finnst mér Apple vera of lokaður vettvangur fyrir minn smekk. Verðið er hins vegar lokkandi og kannski það sem kom mest á óvart, en ódýrasta útgáfan kostar einungis 499$ sem er mun lægra en nánast allir höfðu spáð.

You may also like...

4 Responses

 1. Carlos segir:

  Ég hef verið að velta þessum veikleikum fyrir mér. Ég ætla að leyfa mér að fækka þeim.

  1. SD kortin og tenging við stafrænar myndavélar eru í kví, en ekki á tækinu sjálfu, eins og þú bendir á. Með því er tækið meðfærilegra.

  2. Ekkert USB tengi á tækinu þarf ekki að vera galli, þar sem bæði Bluetooth og WiFi er innbyggt. USB tengi eru á öllum borð og fartölvum, en þetta tæki er ekki ætlað að koma í stað þeirra.

  3. Engin myndavél er ekki galli nema vegna myndaspjalls.

  4. Í stað sjónvarpstengis er tenging við VGA á dock, þannig að hægt er að tengja tækið við skjávarpa. Það ætti að vera nóg, því að eigi maður kvikmyndir af iTunes, þá á maður væntanlega líka tölvu sem getur spilað þær og hana er hægt að tengja við sjónvarp.

  Annað af þessum lista getur talist til galla, miðað við notkunarþarfir notandans. Ég held að skortur á fjölvinnslu geti vegið þar þyngst, einnig skortur á stuðningi við fleiri tungumál s.s. íslensku.

  Það er rétt að benda á það, að töflutölvur sem eru á markaðinum og hafa allt það sem hér er talið til galla, eru yfirleitt 3 – 5 sinnum dýrari en iPad mun vera.

 2. sfjalar segir:

  Ég held að tækið yrði alveg jafn meðfærilegt þrátt fyrir rauf fyrir SD kort og einhverja sjónvarpstengingu. USB hefur ýmsa kosti umfram bæði WiFi og Bluetooth, t.d. einfaldleika og jafnvel hraða þegar kemur að því að færa stórar skrár á milli. Myndavélin gagnast við meira en spjall og ég er alveg viss um að það verður bætt úr myndavélaskortinum fyrr en seinna.

  En hvað getum við svo kallað svona grip? Er þetta spjaldtölva?

 3. Carlos segir:

  Spjaldtölva hljómar betur en töflutölva. Hitt sem þú nefnir verður tíminn að leiða í ljós, hugsa ég.

 4. Mér skilst að tækið sé eins og iPhone og iPod að því leyti, að öll forrit verða að hafa verið keypt og samþykkt á iTunes. Það sé ekki hægt að taka hvaða forrit sem ætlar er á Macintosh tölvu og keyra það á iPod.

  Ef svo er líst mér lítið á gripinn – mér hugnast ekki tilraunir Steve Jobs til að læsa kaupendur inni. Lágt verð er væntanlega tilkomið vegna þess að það á að einoka allar sölur eftir það.

Færðu inn athugasemd

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Þú mátt nota þessi HTML efnisorð og eiginleika: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>